föstudagur, 2. ágúst 2019

Holland

Við fórum til Hollands í sumarfríinu og áttum yndislega daga þar. Við flugum til Amsterdam með Transavia og vorum þar í tvo daga. Við gistum í þakíbúð með stórri einkaverönd í Amsterdam (Eric Vökel  Boutique Apartments - Amsterdam Suites). Amsterdam er skemmtileg borg og iðar af lífi - ég hef aldrei upplifað aðra eins hjólreiðamenningu. Í Amsterdam búa um 750.000 manns og talið er að 40% allra samgangna má telja til reiðhjóla. Það eru hjólastígar úti um allt og lítið um bílaumferð. Hjólreiðamenn eiga forgang og hjóla án hjálms. Ég er alveg hissa á því að það skuli ekki vera meira um slys á gangandi vegfarendum því hraðinn á hjólreiðamönnum er mikill og allir einhvern veginn að flýta sér. Það var gaman að skoða gamla bæinn með sínum þröngu strætum, skökku og skældu húsum. Þá setja gömlu brýrnar og vindmyllurnar svip á bæinn. Gömlu húsin í Amsterdam eru mjög sjarmerandi - það er ótrúlegt að sjá hve mörg þeirra eru skökk. Við sigldum um síkin og heimsóttum Hús Önnu Frank. Þvílík upplifun að koma  í þetta hús, þar sem Anna Frank og fjölskylda hennar földust í 2 heil ár og fóru aldrei út. Til að komast á safnið þarf að panta miða með tveggja mánaða fyrirvara. Þá heimsóttum við Ríkissafnið (Rijksmuseum) sem er stærsta og merkilegasta safn í Hollandi. Safnið er í hópi bestu listasafna heims en þar má sjá m.a. verk eftir Rembrandt, Van Gogh, Frans Hals, Jan Vermeer, Jan Steen og fleiri. Frá Amsterdam lá leiðin til Utrecht þar sem við vorum í 5 daga. Utrecht er  fjórða stærsta borg Hollands með 311. ooo íbúa. Það er ótrúlega fallegt í Utrecht og hún er sögð vera Amsterdam án ferðamanna. Við gistum á hótelinu Hampton by Hilton sem er staðsett í verslunarmiðstöðinni Hoog Catharijne. Við vorum dugleg að rölta um og sigldum um síkin. Það var gaman að þræða hliðargöturnar en þar leyndust margar litlar og spennandi verslanir. Við fórum einnig í dagsferð til Rotterdam. Þar stóðu byggingarnar upp úr en Rotterdam er nútíma borg og er þekkt fyrir nútíma arkitektúr. Teningshúsið svokallaða er stórmerkilegt og var hannað af Piet Blom og er nálægt gömlu höfninni. Það er virkilega fallegt í Hollandi og við lentum í hitabylgjunni sem hefur gengið yfir Evrópu að undanförnu. Hitinn fór mest upp í 36 stig. Það var einum of heitt - það verður að segjast eins og er. Ég hlakka til að heimsækja Holland á ný. Ég setti inn nokkrar myndir frá ferðalaginu ...

Þessar myndir eru teknar í Utrecht ...








Það eru blómamarkaðir út um allt! Svo falleg blóm ...



Dásamlegur teketillinn ...

Þessi hvalur er búinn til úr plasti sem hefur fundist í sjónum og á að
minna okkur á að draga úr plastneyslu. Hann ferðast á milli staða. 

Hann er núna í Utrecht en á að fara næst til Asíu ...


Myndirnar hér fyrir neðan eru frá Amsterdam ...





Mörg húsin eru skökk eins og sjá má á þessari mynd ...


Hús Önnu Frank



Myndir frá Rotterdam:
Teningshúsið fræga í Rotterdam.


Gamla höfnin í Rotterdam.







































Engin ummæli:

Skrifa ummæli