fimmtudagur, 9. apríl 2015

Tiltekt ...

Þá er páskafríið á enda og aprílmánuður runninn upp. Það verður nóg að gera í þessum mánuði og því mikilvægt að nýta tímann vel. Ég sá ansi flotta grein á pjatt.is sem fjallar um óþarfa hluti á heimilinu. Greinin heitir: 12 hlutir sem þú átt að henda eða gefa sem fyrst. Til að líða vel heima hjá sér er fyrsta skrefið að taka til í draslinu :) Mælt er með að hafa einn dag í mánuði eða viku til að losa sig við hluti sem eru óþarfir. Eftirfarandi listi getur því komið að góðum notum ...

                 










Losaðu þig við þetta!

1. Gömul tímarit

Þessi tímarit. Þú átt aldrei eftir að lesa þau. Annars værir þú fyrir löngu búin að því. Þannig er þetta bara. Gefðu blöðin, til dæmis á leikskóla eða láttu myndlistarkennara í skólanum hafa þau. Nú eða vinkonu þína sem er hárgreiðslukona, eða læknir. Ef það er einhver grein sem þig virkilega langar að halda í þá væri kannski þjóðráð að skanna hana inn og geyma í tölvutæku formi.

2. Reikningar, kvittanir og gluggapóstur

Hentu öllum kvittunum og reikningum sem þú ætlar ekki að nota við skattframtalið. Ef þér finnst svakalega erfitt að henda þessu þá mælum við sterklega með að nota EVERNOTE til að halda utan um svona gögn. Þú tekur bara mynd á snjallsímann og geymir svo þessar kvittanir í tölvutæku formi, og prentar út síðar ef þú nauðsynlega þarft.

3. Föt

Þú veist hvernig þetta er með fötin. Ef þú hefur ekki farið í þau í tvö ár þá ertu ekki að fara í þau aftur. Hentu spjörum sem þú hefur ekki notað síðustu tvö árin… Hentu eða gefðu þeim sem þurfa meira á fötunum að halda. Til dæmis til Samhjálpar eða Hjálpræðishersins. Það sem þú þarft er skápapláss, hreinleiki og gott Feng Shui. Ef þú nennir geturðu líka reynt að selja fötin á Facebook.

4. Bækur

Farðu í gegnum bækurnar þínar og taktu saman þær bækur sem þú ert ekki að fara að fletta upp aftur. Vertu raunsæ/r og grimm/ur í þessu ferli. Ef þú hefur ekki snert bókina í ár þá ertu ekki að fara að lesa hana aftur. Seldu hana í gegnum einhverja grúbbu á Facebook eða skiptu á þeim og öðrum bókum. Svo má alltaf gefa þær á bókasöfn!

5. Lyf og vítamín

Hvað að gerast í lyfjaskápnum hjá þér? Er helmingurinn af þessu útrunninn? Ertu að fara að borða restina af þessum hálfkláraða pensilínkúr eða… ?

6. Snyrtivörur

Snyrtivörur hafa oft fremur stuttan líftíma. Farðu í gegnum vörurnar sem þú notar hreint ekki og átt aldrei eftir að gera. Gefðu litlu frænku sem hefur gaman af að leika sér með gamla varaliti eða hentu í ruslið. Ef þú ert ekki að nota þetta núna og hefur ekki gert síðasta árið þá mun eflaust ekki koma að því á næstunni.

7. Skart

Skartgripirnir þínir. Farðu í gegnum þá og seldu það sem er skemmt. Hentu glingri. Gull og silfur má alltaf taka til gullsmiðs og biðja þá að smíða nýja gripi sem þú getur meira að segja verið með í að hanna. Það er auðvitað frábært ef þú ert til dæmis skilin/n og langar ekki að ganga um með gamlar ástarjátningar á fingrunum eða um hálsinn. Halló?

8. Matur

Farðu í gegnum allt matarkyns hjá þér og hentu því sem þarf að henda. Gerðu þetta í hverri einustu viku. Reyndu að sjá til þess að matur skemmist aldrei í ísskápnum þínum.

9. Minningar

Settu þær í einn skókassa. Maður á ekki að þurfa meira pláss fyrir minningarnar sínar. Svo má auðvitað setja margt í Evernote. Eins og t.d. myndir, póstkort og fleira. Þannig er líka hægt að deila þessu með fleirum ef við á.

10. Glósubækur

Maður hefur ekkert að gera við gamlar glósubækur eða planbækur. Skoðaðu þær og hentu miskunarlaust þeim sem þú ert ekki að nota og eru útkrotaðar og fullar.

11. Gömul raftæki, snúrur og þessháttar.

Það er með ólíkindum hvað við höldum oft fast í eitthvað gamalt rafmagnsdót og snúrur. Tölvur, gamlir símar og svo framvegis. Seldu þetta t.d. á á Gazelle.com og Nextworth.com nú eða bara í Facebook grúbbum.

12. Leikföng

Er barnið þitt í alvöru að leika sér með allt þetta dót? Nei, auðvitað ekki. Það er tilvalið að skiptast á leikföngum þegar börnin eru hætt að leika sér með þau (t.d. Barbie ofl) eða selja á netinu. Það sem skiptir mestu er að draslið fari og það myndist nýtt pláss.

                             


Engin ummæli:

Skrifa ummæli